Stjórn Félagsins Starfsárið 2021
Formaður: Anna María Írisardóttir.
Varaformaður: Guna Mežule
Umsjónarmaður Stúdiós: Ólafur Harðarson – Sími: 849 1138
Gjaldkeri: Guðmundur Guðbergsson.
Ritari: Jón Óskar Hauksson.
Meðstjórnandi: Elvar Ágústsson.
Starf félagsins felst einna helst í eftirfarandi þáttum
- að sameina þá sem áhuga hafa á ljósmyndun og ljósmyndum.
- að hittast og spjalla, læra hvert af öðru.
- að sýna landsmönnum að fleira er áhugavert frá Reykjanesbæ en körfubolti og rokk!
- og margt margt fleira!
Okkar saga
Það tók 3 tilraunir að koma þessu félagi á laggirnar og með aðstoð margra góðra vina á góðum stöðum þykir okkur vel hafa heppnast. Stofnaðilar telja sex manns og hefur félagið vaxið upp í stóran hóp um 45 manns. Þörf er á félagi áhugaljósmyndara á Suðurnesjum, sérstaklega eftir að ljósmyndaklúbbar í skólum fóru hallandi fæti vegna þeirrar byltingar sem stafræn ljósmyndun olli. Þótti nokkrum því kominn tími til að ná saman smá félagsskap sem hefði gaman af því að hitta aðra með sama áhugamál, ræða saman og læra hvort af öðru. Félagið var formlega stofnað í janúar 2006 og tveir stofnfundir haldnir.
Félagið er í samstarfi við Menningarsvið Reykjanesbæjar – þaðan fær félagið árlegan styrk og skuldbindur sig í staðin til að halda amk 1 sýningu á ári (Ljósanæturhelgin) og sinna einnig samfélagsþjónustu er einna helst beinist að skólum bæjarins.
Við höfum haldið eftirfarandi sýningar:
2006:
Sýning var í tengslum við Tómstundahelgina 2006 þar sem nokkrir félagar voru með 3 myndir hver. Sú sýning var svo flutt niður í Pakkhús (gamla Hf) og stóð í 2 vikur þar. Þangað fengum við meðal annars Ljósálfana í heimsókn en þeir eru lítill hópur atvinnu- og áhugaljósmyndara af höfuðborgarsvæðinu.
Sýning var á Ljósanótt og þá í Félagsbíói sem Reykjanesbær lagði til. Sú sýning sýndi að þetta félag ætti sannarlega rétt á sér, á hana komu yfir 1500 manns en þar sýndu fimmtán félagar. Á þeirri sýningu var ákveðið að myndefni væri frjálst en sýningaraðilar mættu einnig taka þátt í þema sýningarinnar sem að þessu sinni var andlit bæjarins.
Sýning var haldin 29. nóv. – 10. des. Myndefni var einnig frjálst á þeirri sýningu en til að brydda upp á einhverju nýju var ákveðið að hafa sýningu innan sýningar. Á sýningunni var lítill, lokaður sýningarsalur þar sem sýndar voru myndir bannaðar yngri en 18 – þessi skilaboð túlkaði hver og einn fyrir sig.
2007:
Sýning okkar og sú fyrsta á árinu var um tómstundarhelgina. 12 manns tóku þátt í þessari sýningu, myndefni og fjöldi mynda var frjáls. Allir voru sammála að félaginu færi á allan hátt fram og var “básinn” okkar hinn glæsilegasti. Við “framreiddum” myndir okkar á þann hátt að stilla þeim upp á trönur – sumir notuðust við settlegar ikea trönur, einn smíðaði sér eigin trönur á staðnum (custom made), ein bjó sér til ljómandi flottan myndastand og hengdi þar upp 8 myndir og svo var ein sem fékk lánaðar dýrar listamannatrönur með góðfúslegu leyfi FS. Auðvitað nýttu sumir sér það sem á staðnum var og notuðu grindurnar sem girtu básinn okkar af.
2008:
Haldnar voru tvær sýningar á árinu. Sú fyrri í Listasmiðjunni á Tómstundahelgi Reykjanesbæjar, og sú seinni í Kjarna (Flughótel) á Ljósanótt.
2009:
Haldnar voru þrjár ljósmyndasýningar á árinu í nafni félagsins.
Sú fyrsta í tengslum við Safnahelgi dagana 13-15 mars, önnur í tengslum við Frístundarhelgi 25 apríl, og sú þriðja á sjálfri Ljósanótt, þar sem Ljósop sýndi í Kjarna (Flughóteli). Þáttaka félagsmanna á sýningunum þremur var mjög góð, mikil aðsókn var á sýningarnar og teljast þær hafa heppnast vel í alla staði enda mikil gróska í félagsmönnum.
2010:
Haldin var ein ljósmyndasýning á árinu sem leið. Var sú sýning haldin í tengslum við Ljósanótt 2010 og var sýningin haldin í Kjarna (Flughóteli). Þáttaka félagsmanna var mjög góð, mikil aðsókn var á sýninguna og telst hún hafa heppnast vel í alla staði.
2011:
Félagið hélt að vanda glæsilega ljósmyndasýningu á Ljósanótt. Met þáttaka var á sýningunni, og telst þetta stærsta sýning félagsins til þessa. Sýningin fór fram í gömlu HF húsunum í Keflavík og skiptu gestir sýningarinnar þúsundum.
2012:
Hápunktur ársins var Ljósanætursýning Ljósops helgina 30 ágúst til 2 september, og var sýningin að þessu sinni haldin í Svarta Pakkhúsinu. Þáttaka var mjög góð og tóku 15 félagsmenn þátt í sýningunni. Mummi tók við af Þorra sem sölukóngur sýningarinnar með 14 seldar (kríu)myndir. Geri aðrir betur!
2013:
Sumarmánuðir og haust voru notuð í undirbúning fyrir Ljósanætursýningu Ljósops. Að þessu sinni var sýningin haldin á Cafe Petite, auk þess sem 2 félagsmenn sýndu myndir í Flughóteli. Sýningarnar þóttust heppnast með ágætum en fleiri félagsmenn hefðu mátt taka þátt að mati stjórnar.
Um haustið réðist félagið í uppsetningu á sýningarstandi á Flughóteli með Reyni Óla í fararbroddi. Settar voru upp grindur á bak við gler í Kjarna og mun félagið skipta út myndum þar reglulega til að leyfa gestum og gangandi að njóta listarinnar.
2014:
Félagsmenn hófu undirbúning fyrir Ljósanætursýningu klúbbsins í byrjun vors og fundað var með skipulögðum hætti fram á sumar. Félagið hélt glæsilega sýningu í nýju húsnæði Omnis í gömlu símstöðinni á Hafnargötu í Keflavík. Þátttaka félagsmanna var ágæt og fékk sýningin mjög góðar viðtökur og þúsundir gesta yfir Ljósanæturhelgina.
2015:
Félagar klúbbsins hófu undirbúning að Ljósanætursýningu félagsins sem að þessu sinni var haldin í sal Iðnsveinahússins (gamla Omnis) þar sem 6 félagsmenn sýndu myndir sínar. Um 300 myndir úr verkefni Andlit Bæjarins voru til sýnis í Listasafninu ásamt myndum frá Vigdísi Viggósdóttur sem sýndar voru í anddyri safnsins og lauk þeim sýningum um miðjan nóvember.